Boeing 707

Þegar ég á einungis eftir nokkur flug á Boeing 737 vélinni er við hæfi að rifja upp sögu fyrstu Boeing farþegaþotunnar, Boeing 707.

Eftir hrakfarir de Havilland Comet vélarinnar smíðaði Boeing ótrúlega vinsæla farþegaþotu sem varð sú fyrsta til að skila framleiðanda sínum hagnaði. Vélin kom Boeing á kortið sem einum stærsta framleiðanda farþegaflugvéla, eftir að Douglas hafi verið alsráðandi á markaðinum. Þotuöldin var hafin og fyrsta vélin í seríu 7x7 Boeing véla hóf sig á loft 20. desember 1957.

Boeing vildi búa til vél sem gæti keppt við Comet vélina, og þeir voru með góða reynslu úr seinni heimstyrjöldinni. Þar höfðu þeir framleitt vélina B-47 Stratojet, þar sem hreyflarnir hanga undir vængjum vélarinnar, en ekki byggðir inn í vængrótina eins og t.d. í Comet vélinni. Boeing nýtti sér þetta og var 707 fyrsta farþegavélin sem var með hreyflana undir vængnum. Mikið álag er á vængi flugvéla þegar lyftikrafturinn togar vænginn upp og býr til mikla spennu, einkum við vængrótina. Hreyflarnir undir vængnum virka sem lóð; halda vængnum niðri og minnka þar með álagið. Þessi hönnun reyndist mjög vel og enn í dag er vinsælast hjá flestum flugvélaframleiðendum að setja hreyflana undir vænginn. 

boeing-707-3v-250Frumgerðin (e. prototype) af 707 var kölluð 367-80, eða "Dash-80". Boeing voru sannfærðir um að þotur væru ekki eingöngu fyrir herinn, heldur væri mikill markaður í almennu flugi fyrir þessum ferðamáta. Hafist var handa við Dash-80 1952, ári eftir að Comet vélin var komin í almenna notkun. Vélin var tilbúinn 2 árum seinna, 14. maí 1954. Boeing tóku mikla áhættu með þessari framleiðslu því á þessum tíma var ekkert flugfélag búið að panta vélina. Úr Dash-80 vélinni urðu svo til 2 vélar; Boeing 707 fyrir farþegaflug, og KC-135 fyrir flugherinn.

Fyrsta pöntunin kom 1955 þegar Pan Am pantaði 20x 707 og 25x Douglas DC-8, sem var aðal keppinautur Boeing á þessum tíma. Með þessari pöntun margfaldið Pan Am sætaframboð sitt miðað við sem áður var með "litlu" skrúfuþotunum. Fyrsta þotan fékk heitið Boeing 707-120 og flaug Pan Am með fyrstu farþegana í október 1958 frá New York til Parísar, ári áður en DC-8 kom á markað.

Þau flugfélög sem höfðu einungis pantað DC-8 vélar, aðallega vegna þess að Douglas var stærsti framleiðandinn á þessum tíma, misstu af stórum hluta kökunnar í farþegaflugi yfir Atlantshafið. Þetta varð til að styrkja stöðu Boeing á þessum markaði enn frekar.

Þotuöldin var hafin í Bandaríkjunum. Stjórnvöld áttu ekki von á hversu hratt þróunin hafði átt sér stað og voru flestir flugvellir ekki tilbúnir að taka á móti svona stórri vél. Það þurfti að lengja flugbrautir um heilan kílómeter, byggja stærri flugskýli og stærri rampa, ásamt því að fólki var boðið að ganga um borð í loftbrú. Það þurfti að stjórna allri umferðinni um háloftin og stýra þotunum framhjá hægfleygari vélum. Viðskiptamenn frá Manhattan gátu flogið til San Fransisco í morgunflugi, fundað síðdegis og verið komnir heim í bæli fyrir háttatíma.

Í lok sjöunda áratugarins varð B707 fórnarlamb sinnar eigin velgengni. Farþegaflug á þotu var orðið gífurlega vinsælt og framboð náði ekki að anna eftirspurn. Fólk vildi stærri vélar sem gátu tekið fleiri farþega. Það borgaði sig ekki að stækka B707 frekar, stærri búkur þyrfti nýja vænghönnun, nýjan lendingarbúnað o.s.frv. Miklar framfarir höfðu einnig átt sér stað í þotuhreyflum varðandi eldsneytiseyðslu og hávaðamengun og voru 707 hreyflarnir orðnir úreltir. Boeing byrjaði því upp á nýtt og úr varð Júmbó þotan sem við þekkjum öll, Boeing 747. 

KC-135 í KeflavíkFramleiðslu B707 lauk árið 1978 eftir að 1010 vélar í farþegaútgáfu höfðu verið framleiddar, þótt að mörgum þeirra hafi verið breytt í herflugvélar. Þó eru þessar vélar enn í noktun í Íran og Argentínu, en flest vestræn flugfélög hættu að fljúga vélinni á 9. áratugnum. Herútgáfa vélarinnar varð mjög vinsæl, þá sérlega KC-135 útgáfan, sem kallast "Stratotanker". Ein slík vél var í Keflavík á meðan herinn var þar, en ég fékk að njóta þeirra forréttinda að vera í umferðahring með þeirri vél þegar ég var í lendingaæfingum í Keflavík 2003. 

Það er óhætt að segja að Boeing hafi haft mikil áhrif á flugheiminn með B707 vélinni. Vélin hefur staðist tímans tönn, og áhrifa gætir víða. Flugstjórnarklefinn á 727 á 60% sameiginlegt með B707, og 737 á svo 60% sameiginlegt með 727. Sjá myndir hér. Merkilegt hvernig hlutirnir þróast. Skrokkurinn á Boeing 737 og meira segja 757 er að miklu leiti byggður á 707. Nefið á vélinni er það sem Boeing hefur haldið í og gerir vélarnar auðþekkjanlegar.  

Mér finnst alveg ótrúlega skemmtilegt að hafa fengið tækifæri til að fljúga Boeing 737 og fá smá snert af því hvernig tilfinning það hefur verið að fljúga 707 vélinni. Nú á ég eftir 5 flug á vélinni og á eftir að kveðja hana með söknuði. En tæknin flýgur fram og það verður spennandi að fljúga Airbus vélinni, sem er allt allt öðruvísi vél. 

Að sjálfsögðu ljúkum við þessu með smá myndbroti frá youtube. Það er alveg þess virði að horfa á það, en þarna sést þegar einn gamall og góður "test-pilot" tekur Boeing 707 í svokallað "barrel-roll". Magnað alveg hreint:

Heimildir:

http://www.boeing.com/commercial/707family/

http://en.wikipedia.org/wiki/Boeing_707

http://en.wikipedia.org/wiki/Boeing_367-80 

http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,810685,00.html 

http://www.b737.org.uk/flightdeck727.htm 

http://www.airliners.net/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Það er alveg magnað að sjá hvað þessir kallar hafa mikla tilfinningu fyrir vélinni. Ég bý í Seattle og er þokkalega málkunnugur nokkrum testflugmönnum hjá Boeing, ég benti þeim á þetta myndbrot sem að þeir könnuðust náttúrulega við. Þeir sögðu, allir sem einn, að ef að einhver myndi reyna svona í dag þá væri hann orðinn atvinnulaus áður ren hringurinn væri búinn. Þeir söknuðu þess allir, sérstaklega þeir eldri að test procedures væri miklu fastari í skorðum í dag, þeir eru sannfærðir um að ef að hlustað væri meira á flugmennina þá væri hægt að stytta testfasann á vélum heilmikið án þess að stofna öryggi í hættu.

En svona er þetta, verkfræðingarnir og ekki síst baunateljararnir ráða för í dag.

Heimir Tómasson, 11.12.2007 kl. 17:28

2 identicon

Það má vera að Tex Johnson hafi ekki verið rekinn fyrir rollið á þessari prótótýpu af 707-unni, en hann var kallaður inn á teppið og spurður hvern fjandann hann hefði verið að gera. Hann svaraði því svona: "Well sir, i was selling an airplane" Bill Allen, þáverandi forstjóri Boeing sagði þá við hann: "well, you know that, and i know that, just don't ever do it again" Þrátt fyrir það sem virtist vera föðurleg áminning, þá fékk Tex aldrei að vera fyrsti tilraunaflugmaður á nýrri vél hjá Boeing eftir þetta. 

Thinktank (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Davíð Ásgeirsson

Höfundur

Davíð Ásgeirsson
Davíð Ásgeirsson
Flugmaður búsettur í Englandi. Hér mun ég skrifa um ýmislegt sem snýr að flugi.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • boeing-707-3v-250
  • boeing-707-3v
  • KC-135 í Keflavík
  • boeing-707-3v
  • boeing-707

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband