27.10.2007 | 15:49
easyJet kaupir GB Airways og færir út kvíarnar frá London Gatwick
Alveg hefur það farið framhjá íslenskum fjölmiðlum að easyJet hafi í gær keypt flugfélagið GB Airways, sem rekur 15 flugvélar frá Gatwick og Manchester fyrir British Airways. Kaupverðið var einungis 103,5m pund. Í þessum kaupum fær easyJet aukið rými til að vaxa á London Gatwick, fljúga til nýrra áfangastaða, m.a. til Egyptalands, Túnis, Möltu, Kýpur og Grísku eyjanna. Þetta eru því töluverðar útvíkkanir frá núverandi leiðakerfi easyJet.
Þar að auki eru þessar 15 vélar af gerðinni Airbus 320 og 321, sem eru af sömu fjölskyldu og núverandi A319 vélar easyJet, en eru stærri og taka fleiri farþega. easyJet hefur hingað til allaf stefnt að því að hafa einfaldan rekstur þar sem allar vélar fyrirtækisins taka jafn marga farþega. Þetta þykir því vera stórt skref hjá fyrirtækinu. Hér má sjá samanburð á A321 og B737-700 sem ég flýg nú. Airbus 321 tekur 220 farþega, sem er sambærilegt við Boeing 757-200 vélar Icelandair.
Þessar fréttir komu verulega á óvart þegar þetta var tilkynnt í gærmorgun. Ég ræddi við félaga minn sem starfar hjá GB Airways sem sagði mér að flestir flugmenn þar væru sáttir við samrunann. Vegna óvissu um framtíð GB Airways undanfarna mánuði voru margir flugmenn farnir að skoða sig um og margir hefðu verið komnir í holding pool hjá easyJet hvort sem er.
Flestir hjá easyJet eru mjög spenntir, þetta eru auðvitað stór tíðindi, með GB Airways koma um 1.000 nýir starfsmenn, og allir eru boðnir hjartanlega velkomnir til starfa hjá appelsínugula flugfélaginu. Það skemmir ekki heldur fyrir að nú verður hægt að bóka flugferðir á starfsmannakjörum til allra þessa nýju og spennandi áfangastaða. Við erum strax farin að skipuleggja ferðalag til Egyptalands.
easyJet hefur áður yfirtekið flugfélög, en þeir tóku yfir flugfélagið Go Fly árið 2002, einnig anga af British Airways. Sá samruni gekk tiltörulega vel fyrir sig, hér eru enn margir fyrrverandi starfsmenn Go og eru afar sáttir, en auðvitað er svona samruni alltaf erfiður. Go flaug einmitt til Íslands eitt sumar fyrir þá sem muna svo langt aftur. Þeir fyrrverandi starfsmenn Go sem ég hef rætt við sögðu að það flug hafi gengið framar vonum, en það hafi ekki verið tekið upp að nýju af easyJet af ýmsum ástæðum.
Nú er spurning hvort að easyJet hafi rúm til að hefja flug til Íslands, en það er ekkert því til fyrirstöðu. Ég velti því fyrir mér hvort að það sé grunnur fyrir áætlunarflugum frá London Luton, eða í beinni samkeppni við BA frá Gatwick, eða jafnvel við IcelandExpress frá Stansted. Það væri auðvitað draumur fyrir mig að geta flogið áætlunarflug til Íslands. Þegar ég verð fluttur til Mílanó flýgur easyJet þaðan til London Gatwick allt að fjórum sinnum á dag, þannig að auðvelt væri fyrir mig að komast alla leið heim til Íslands með easyJet.
Hver er tilbúinn í að hjálpa mér að rannsaka hvort að það muni borga sig fyrir easyJet að fljúga til Íslands?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Facebook
Um bloggið
Davíð Ásgeirsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nohh, bara kominn á moggabloggið líka! Flott - velkominn!
Ásgeir Eiríksson, 28.10.2007 kl. 00:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.